Bandaríski fjárfestingasjóðurinn MHR Institutional Partners III seldi á fimmtudaginn í síðustu viku 3,84% hlut sinn í Eimskipafélagi Íslands samkvæmt gögnum frá Kauphöllinni yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga.

Sjóðurinn seldi alla 7.672.360 hluti sína í félaginu. Erfitt er þó að segja til um hver kaupandinn eða kaupendurnir voru en þónokkrir innlendir bankar, lífeyris- og fjárfestingasjóðir hafa bætt örlítið við hlut sinn. Samkvæmt gögnum Kauphallarinnar eru þó tveir nýir aðilar á meðal 20 stærstu hluthafa Eimskips ef miðað er við síðustu viku. Kvika banki á nú 1,4% hlut í Eimskip og bandaríska fjárfestingafyrirtækið The Wellington Trust Company á nú 1,45% hlut í félaginu. Hvorugur aðilinn var meðal tuttugu stærstu stærstu hluthafa í síðustu viku.