Leigufélagið Heimavellir hyggjast bjóða 750-900 milljón nýja hluti í félaginu í tengslum við skráningu sínaá Aðalmarkað Kauphallarinnar. Þá hafa þeir einnig samið um sölu á tæplega 218 milljón hlutum í Heimavöllum til bandaríska fjárfestingafélagsins Eaton Vance. Fjárfesting Eaton Vance átti sér stað fyrir tilstuðlan Fossa markaða.

Ef útboðsgengi tilboðsbókar B er notað til viðmiðunar á kaupum erlenda fjárfestingasjóðsins má ætla að viðskiptin nemi um 301-373 milljónum króna. Jafnframt má áætla að félagið gæti sótt fjármagn á bilinu 1-2 milljarðar í útboðinu miðað við tilboðsverð til viðbótar við sölu hlutafjár til erlenda fjárfestingasjóðsins.

Nýir hlutir erlenda fjárfestingasjóðsins munu nema 1,92%-1,95% af heildar hlutafé félagsins eftir útboðið en aðrir nýir hlutir í útboðinu munu nema 6,67%-7,89% en það ræðst af því hvort Heimavellir ákveða að að gefa út 750 milljón hluti eða 900 milljón hluti. Samtals verður nýtt hlutafé því 8,59%-9,84% af heildarhlutafé félagsins að nafnvirði eftir útboðið.

Áskriftartímabil útboðsins var dagana 7. og 8. maí en Heimavellir munu ásamt Landsbankanum funda með fjárfestum á næstu dögum.