Fyrr í dag var tilkynnt um það að ný eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhluti í hefur tekið gildi, en var stefnan samþykkt af ríkisstjórn. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra bendir á að drög af stefnunni hafi verið kynnt fyrir nokkrum mánuðum. „Við settum eigendastefnuna inn á vefinn til kynningar til að sjá hvort að einhverjar ábendingar kæmu fram. Þær hafa verið minni háttar,“ segir fjármálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að ríkið sé almennt með eigendastefnu í gangi gagnvart sínum fyrirtækjum. „Við gerum þetta gagnvart bönkunum líka,“ segir hann. Benedikt bætir við að það sé lítið nýtt í þessu frá því að drögin voru kynnt.

Ekkert liggur á

Það sem hefur vakið hvað mesta athygli er yfirlýsingin um sölu á 100% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka sem og sú stefna að ríkið geri ráð fyrir því að eiga 34 til 40 prósentu hlut í Landsbankanum til langframa. Einnig er stefnt að því að skrá Landsbankann á hlutabréfamarkað til lengri tíma litið.

„Ég hef margsagt það að við eigum að reyna að selja þessa eignarhluti í sem bestu samkomulagi, þó að það liggi ekki á,“ segir fjármálaráðherra þegar hann er spurður út í söluna á bönkunum. Hann bætir við að ef það hefði verið einhverjar meiriháttar breytingar hefði verið vakið sérstök athygli á því. „Þetta er í öllum efnisatriðum hliðstætt við það sem áður var,“ bætir hann við að lokum.