Upphaf Tulipop-ævintýrisins má rekja til þeirrar miklu gerjunar sem fór í gang eftir fall bankanna. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, lýsir vonbrigðum og sigrum í uppbyggingu vörumerkisins. Það sé nú að skila sér að hafa ákveðið að flýta sér hægt, en fyrirtækið gerði í sumar samning að andvirði 700 milljóna króna við teiknimyndaframleiðandann Zodiak Kids.

Árið 2009 var Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop, nýkomin heim úr námi og vinnu í London, komin í ráðgjafateymi Pricewaterhouse Coopers, en þó að henni þætti ráðgjafastörfin spennandi fannst henni vanta aðeins upp á fjölbreytileikann.

„Þarna um haustið var aðallega um ýmis hruntengd verkefni að ræða, svo ég sagði við Signýju, að ef við ætluðum einhvern tímann að láta slag standa og stofna fyrirtæki í kringum hennar myndheim þá væri það núna, svo ég hætti hjá Pricewaterhouse Coopers og við stofnuðum Tulipop,“ segir Helga, en Signý Kolbeinsdóttir er aðalhönnuðurinn að fígúrunum skemmtilegu.

„Signý er vöruhönnuður að mennt en hún lærði í Listaháskóla Íslands og hefur hún verið að teikna nánast frá fæðingu. Þegar ég kynntist Signýju í MR þá man ég alltaf eftir því að þegar við hittumst á kaffihúsi þá sat hún og var að myndskreyta söguverkefni, sem mér hafði aldrei dottið í hug að gera. En fyrir henni er allt svo myndrænt, og hún er svo mikill listamaður í sér. Hún hafði verið að vinna bæði sjálfstætt og á auglýsingastofum hérna heima eftir að hún kláraði vöruhönnunina, en hafði alltaf langað að búa til sitt eigið vörumerki.“

Leiðist ekki að vera líkt við Múmínálfa

Helga segir að líkja megi vörumerkinu við önnur þekkt vörumerki þar sem krúttlegar fígúrur eru í aðalhlutverki, en hún segir þau ekki öll vera byggð upp út frá sögum eða tölvuleikjum eins og Múmínálfarnir eða Pókemon, þó það sé algeng leið til vinsælda.

„Hello Kitty, sem er eitt frægasta svona vörumerkið í heimi, birtist fyrst á peningabuddu árið 1975, og í dag seljast Hello Kitty vörur fyrir yfir 100 milljarða króna á ári. Lengst af voru ekki til neinar sögur byggðar á persónunni en síðar komu einhverjar bækur og teiknimyndir á markað, sem því miður hafa ekki orðið þekktar fyrir gæði. Einnig má nefna hollenska vörumerkið Miffy sem selur vörur fyrir um 130 milljarða króna á ári, og nýlegt asískt vörumerki sem kallast Line Friends, sem framleiðir karakter-vörur fyrir fullorðna, en þar eru engar sögur. Síðan er Pókemon ótrúlega sterkt enn þann dag í dag og orðnir að klassík eins og Múmínálfarnir sem auðvitað byggja á sögum,“ segir Helga sem ekki leiðist samanburðurinn við þá síðastnefndu.

„Við erum mjög sátt við að Tulipop sé líkt við Múmínálfana, það er skemmtileg samlíking. Múmínálfarnir eru frábærir, sögurnar höfða til barna og fullorðinna enda eitthvað áhugavert og dularfullt að gerast undir yfirborðinu líkt og í Tulipop-heiminum. Það sem þeir hafa líka gert einstaklega vel er varningurinn, Múmínvörur eru fallegar og vandaðar og fólk kaupir rándýra Múmínbolla til að safna. Vörumerkið er því að mörgu leyti góð fyrirmynd, en okkar markmið er líkt og hjá Múmínálfunum að búa til frumlegt, skapandi og gott afþreyingarefni og framleiða einungis gæðavarning undir merkjum Tulipop. Það er að okkar mati lykillinn að því að vörumerkið muni lifa lengi, að Tulipop sé ekki bara einhver bóla sem verði vinsæl í nokkur ár og svo fái allir leið. Þetta eru ekki mjög ódýrar vörur heldur er þetta „premium“ vara sem við viljum ekki að endi í draslkassanum í barnaherbergjunum. Því höfum við einnig reynt að framleiða hluti sem hafa notagildi, til dæmis erum við með lampa sem eru náttljós, matarstell, hnífapör, skólatöskur og fleiri vörur sem hafa notið mikilla vinsælda.“

Helga segir fyrirtækið leggja sig fram um að framleiða úr vönduðum efnum og að áhersla sé lögð á að gæða- og öryggisprófa allar vörur auk þess að velja umhverfisvæn efni þegar kostur er. „Við skiptum til dæmis nýlega út mjög vinsælum borðbúnaði hjá okkur sem var úr svokölluðu melamín plasti, sem er nánast óbrjótanlegt, í borðbúnað úr bambustrefjaefni. Það hefur verið mikið lærdómsferli að læra að búa til vörur,“ segir Helga.

„Það gekk alveg brösuglega til að byrja með að fá nógu mikil gæði og kostnaðarsamt til að byrja með. Til dæmis þegar við gerðum fyrsta lampann okkar þurftum við að prófa þrjá framleiðendur til að ná löguninni og efnunum réttum. Einnig gerðum við seðlaveski, þar sem saumaskapurinn var aldrei í lagi í prufugerðunum. Þá komumst við að því að þetta var framleiðandi sem var vanur að gera bakpoka, en var að reyna að færa út kvíarnar og gera seðlaveski, en var einfaldlega ekki með réttu græjurnar í það. Í dag skiptum við einungis við mjög sérhæfðar verksmiðjur og erum með samstarfsaðila í Asíu sem vinna náið með framleiðslustjóranum okkar þannig að framleiðsluferlið er í dag farið að rúlla nokkuð snurðulaust.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .