Nýjar íbúðir við Tryggvagötu hafa lækkað í verði síðan þær komu fyrst á markað og hefur því verið boðið upp á 10% aukalán við kaup á þeim að því er Morgunblaðið segir frá.

Ásett verð á tveimur 75 fermetra þegar þær komu fyrsta á markað nam 54,5 og 59,5 milljónum en sams konar íbúðir eru nú auglýstar á 48,9 til 54,5 milljónir króna. Íbúðirnar eru annars vegar á 2. hæð og hins vegar á þeirri 5., en verðið hækkar eftir því sem ofar dregur.

Hafa kaupendum nú boðist að fá íbúðirnar með 95% lánum en hlutur seljenda af því er um 10 prósentustig. Haft er eftir Böðvari Reynissyni löggiltum fasteignasala hjá Eignamarkaðnum að síðan viðbótarlánin buðust frá mánaðamótum hafi þrjár íbúðir selst með tilkomu þeirra, en lánskjörin eru þau sömu og bankar bjóða.

15 íbúðir af 38 seldar

Þrjár íbúðir til viðbótar eru svo til sölu án viðbótarlánsins, en íbúðirnar eru nú komnar aftur til sölu eftir að hafa verði teknar tímabundið af markaði. Af 38 íbúðum í húsinu voru fjórar fráteknar frá byrjun og fimm til viðbótar seldust strax en síðan var salan hægari en vonir stóðu til.

Sem dæmi um fjármögnun þessara íbúða er að fá 70% upphæðarinnar á verðtryggðu 3,65% vaxta láni til 40 ára, en við það bætist 15% viðbótarlán til að hámarki 15 ára og loks 10% nýju seljendalánin.