Á síðasta ári nam halli af rekstri Seltjarnarnesbæjar 99 milljónum króna, en rekstrarafgangur bæjarins nam 38 milljónum króna, 4 milljónum meira en ráð var fyrir gert. Í frétt á vef bæjarsins segir að verulegt högg hafi verið fyrir bæjarsjóð að þurfa að greiða 176 milljóna króna eingreiðslu til Lífeyrissjóðsins Brúar á árinu. Ásgerður Halldórsdóttir er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Samkvæmt samkomulagi við lífeyrissjóðinn nemur heildarframlag bæjarfélagsins til sjóðsins 644 milljónum króna, í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð, og hefur afgangurinn af greiðslunni verið gjaldfærður á þessu ári.

Skuldaviðmiðið 46%

Skatttekjur nema um 81% af tekjum sveitarfélagsins. Veltufé frá rekstri nam 350 milljónum króna, sem er hækkun frá árinu 2016. Í árslok 2017 voru íbúar Seltjarnarnesbæjar 4.590 og hafði fjölgað um 3%.

Skuldahlutfall bæjarins er 59% og svokallað skuldaviðmið 46%. Eiginfjárhlutfall nemur 66% í árslok. Fjárfesting nam 22% í hlutfalli við rekstrartekjur, en bærinn eyddi 882 milljónum króna í framkvæmdir og hafa þær aldrei verið meiri.

Helstu framkvæmdir voru við hjúkrunarheimilið, sem námu samtals um 565 milljónum króna, stækkun íþróttamiðstöðvar 60 milljónir króna., gatnaframkvæmda og ýmissa annarra smærri framkvæmda.

Þrátt fyrir að halli hafi verið á rekstri bæjarins er sagt í fréttinni að engin lántaka hafi átt sér stað á árinu. Hins vegar er ráð fyrir lántöku á árinu 2018 til að mæta framkvæmdum ársins 2018, m.a. hjúkrunarheimilis, íþróttamiðstöðvar og greiðslu til Lífeyrissjóðsins Brúar.