*

föstudagur, 15. febrúar 2019
Erlent 1. mars 2017 20:59

Selur Trump Rolls-Royce?

Dýrustu lúxusbílarnir hafa selst eins og heitar lummur frá því að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti.

Ritstjórn

 Sala á lúxusbílum í Bandaríkjunum hefur stóraukist eftir að Donald Trump var kosinn forseti 8. nóvember í fyrra.

Sala á Maserati hefur aukist mest, um 47,8%. Rolls Royce fylgdi fast á hæla ítalska framleiðandans með 32,8% aukningu. Sala á Ferrari hefur aukist um 32%. Þetta kemur fram í tölum Autodata sem unnar voru fyrir Wall Street Journal. Þetta er mun meiri aukning en í bílaiðnaðnum í Bandaríkjunum, þar sem salan jókst aðeins um 1,9%.

Fleiri framleiða bíla í þessum verðflokki, líkt og Mercedes-Benz, en erfitt getur reynst að fá sölutölur fyrir einstakar tegundir.

Aukin sala er rakin til sigurs Trump en mjög lítil sala var mánuðina á undan kosningunum en stjórnmálaskýrendur höfðu útnefnt Hillary Clinton forseta löngu fyrir kosningarnar og byggðu það á skoðanakönnunum.

Hlutabréf í Race, móðurfélagi Ferrari, hækkuðu um 29,5% frá kosningunum. Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað mikið. Er það einnig rakið til sigurs Trump.

921 Rollsar seldust í fyrra

Autodata telur að um 7.000 Rolls-Royce, Bentley, Ferrari og Lamborghini bifreiðar hafi selst í fyrra. Rolls-Royce seldist í 921 eintökum í Bandaríkjunum

Allir þessir bílar kosta í kringum 300 þúsund dali eða 30 milljónir króna í Bandaríkjunum. Bílarnir myndu hins vegar kosta um 60 milljónir með 65% vörugjaldi og 24% virðisaukaskatti á Íslandi.

Trump mikill bílaáhugamaður

Donald Trump á mikið bílasafn. Hann hefur jafnan átt Rolls-Royce í bílskúrnum en undanfarin ár hefur hann ekið um á skotheldum Mercedes-Maybach S 600.

Þeir sem eru ósáttir við að Trump sé orðinn forseti, sem eru víst fjölmargir, geta huggað sig við að honum er nú ekið um á einum ljótasta bíl í heimi, forsetabílnum Cadilac númer eitt. Nýr bíll forsetans verður ekkert skárri ef marka má njósnamyndir af honum.