Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti varaformanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fram fer í júní n.k.

Sema Erla segir að hún vilji leggja sitt af mörkum til að tryggja að Samfylkingin skipi sér áfram fremst í flokki þegar kemur að baráttunni fyrir samfélagi sem byggir á grunngildum jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og samstöðu.

Sema Erla er 29 ára stjórnmálafræðingur með meistaragráðu í Evrópufræðum og Evrópurétti frá Edinborgarháskóla. Hún er í dag formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Sema Erla hefur setið í framkvæmdastjórn flokksins frá árinu 2013.

Katrín Júlíusdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar tilkynnti um það í febrúar að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér við næstu Alþingiskosningar og ætlaði að segja af sér sem varaformaður Samfylkingarinnar.