Nú mun stöðumælastaurum vera komið fyrir við Reynisfjörur. Það er fyrirtækið Bergrisi ehf. sem mun sjá um uppsetninguna, en félagið hefur náð samkomulagi við rekstraraðila Reynisfjara um að setja upp staurana.

Stöðumælabúnaðurinn mun falla inn í landslagið við fjörurnar, en hönnun hans líkist stuðlabergi og mun koma til með að þola þau veðurskilyrði sem ráða ríkjum við Reynisfjörur, að sögn Bergrisa. Bæði verður þá hægt að greiða með kredit- og debetkortum.

Guðlaugur Magnússon, framkvæmdastjóri Bergrisa, segir samning félagsins við Reynisfjöru marka skref sem einkaaðilar þurfa að taka í tengslum við þjónustu við ferðamannaiðnaðinn.

„Markmið Bergrisa ehf. er að auðvelda framkvæmdar- og þjónustuaðilum í ferðamannageiranum sem og öðrum að innheimta fyrir þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru eins og bílastæði og salernisaðstöðu til að mynda,” segir Guðlaugur í tilkynningu frá félaginu.

Guðni Einarsson, Gísli Guðbergsson og Ólafur S. Björnsson eru eigendur og rekstraraðilar Reynisfjöru ehf.