Íslandsbanki hefur samið við Arion banka og Landsbankann um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum Íslandsbanka í kauphöll Nasdaq Iceland. Tilgangur beggja samninga er að efla viðskipti með þau skuldabréf sem samningurinn tekur til, auka seljanleika þeirra á eftirmarkaði og stuðla að eðlilegri verðmyndun. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta sem hvorum banka er heimilt að hafa á hverjum degi er samtals 500 milljónir að nafnvirði, samanlagt í öllum skuldabréfaflokkum.

Viðskiptabankarnir hafa undanfarin misseri verið að auka mjög útgáfu sértryggðra skuldabréfa, en það eru skuldabréf sem tryggð eru með tilteknum eignum bankans.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að vægi sértryggðra bréfa á skuldabréfamarkaði fari vaxandi. Það var mat Hrafns Steinarssonar, sérfræðings í greiningardeild Arion banka, að þau myndu taka við útgáfu íbúðabréfa vegna fjármögnunar húsnæðiskaupa almennings.