Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, bendir á í fréttabréfi SAF að tvær áhugaverðar greiningar hafi nýverið komið út um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Annars vegar skýrsla OECD og hin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

„Það kemur skýrt fram í báðum skýrslunum að ferðaþjónustan hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar á Íslandi síðustu ár og að þann árangur þurfi að varðveita. Þá kemur einnig skýrt fram að styrkja verði stoðkerfi ferðaþjónustunnar hér á landi. Þá sé það samkeppnishæfni greinarinnar sem verði að horfa til og tryggja til langrar framtíðar eigi að varðveita þann árangur sem náðst hefur,“ að mati Helgu.

Hún tekur fram hvað varðar auknar skattálögur benda báðar skýrslurnar á að horfa þurfi til aukinnar skilvirkni skattkerfisins almennt og að í alþjóðlegum samanburði sé virkni virðisaukaskattkerfisins lág hér á landi. AGS ítrekar að ef þörf sé á skattahækkunum skuli áherslan vera á eignaskatta, þ.e. skatta á náttúurauðlindir og óbeina skatta, líkt og virðisaukaskatt.

„AGS tekur sérstaklega fram að ef skoða eigi breytingar á skattaumhverfi ferðaþjónustunnar, þurfi að greina vel hvaða áhrif það muni hafa í för með sér, fyrir greinina og ríkissjóð til lengri tíma litið. Stofnunin leggur áherslu á að allar ákvarðanir - stórar og smáar - verði að vera teknar á grundvelli upplýsinga og þekkingar. M.ö.o. greina fyrst og taka svo ákvarðanir - samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sé undir,“ segir í fréttabréfinu.

„Sendinefnd í skuggahagkerfi?“

Á fundi sem að fjármála- og efnahagsráðuneyti hélt nýlega í Hörpu þar sem skýrsla OECD var kynnt, kom sérstaklega fram í máli yfirhagfræðings OECD að sendinefndin hefði kosið að gista í íbúð á vegum Airbnb meðan á Íslandsheimsókninni stóð, þar sem að gistingin á hóteli þótti of dýr.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar bendir á þessa staðreynd og telur hana nokkuð kaldhæðnislega: „Það er umhugsunarvert, að á sama tíma og sendinefndin tekur undir tillögur um auknar álögur á hótelgistingu, sem nemur um 118% hækkun á VSK, kjósi hún sjálf að velja sér íbúðagistingu þar sem hótelgistingin sé nú þegar ekki samkeppnishæf,“ skrifar Helga.