Hin þekkta snyrtivörukeðja Sephora hefur hafið sölu á BIOEFFECT húðlínuvörunum sem framleiddar eru af ORF-líftækni og er fyrsta íslenska vörumerkið sem fer í sölu frá keðjunni.

„Við hjá ORF Líftækni erum afar stolt af því að BIOEFFECT-vörulínan okkar hafi verið valin inn hjá Sephora og þar með fyrstu íslensku vörurnar sem seldar eru hjá keðjunni. Ferlið hefur einkennst af mikilli fagmennsku og ljóst að Sephora styrkir vörumerkið okkar umtalsvert. BIOEFFECT vörurnar eru seldar undir skilgreiningunni „Clean at Sephora“ en Sephora gerir kröfur um að þau vörumerki lúti ströngum skilyrðum um góða framleiðsluhætti, noti aðeins fá og hrein innihaldsefni og sneiði jafnframt hjá innihaldsefnum á borð við paraben, mineral-olíu og fleira. Það var greinilegt að þau hrifust af hreinleikanum, vísindunum á bak við vörurnar, hágæðaframleiðslunni og einstakri virkni EGF vaxtaþáttanna sem framleiddir eru í byggplöntum. Samkeppnin er hörð í þessum geira og oft getur reynst erfitt að ná áheyrn nýrra viðskiptavina, en með tilkomu samstarfsins við þennan snyrtivörurisa vonumst við til að vörumerkið okkar njóti enn meiri athygli og það ýti undir frekari sóknarfæri. BIOEFFECT er auðvitað líka landkynning þar sem Ísland spilar mikilvægt hlutverk hjá vörumerkinu, jafnt í vöruþróun, framleiðslu sem og ímynd þess. Við erum auðvitað mjög stolt af því,“ segir Berglind Johansen, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs BIOEFFECT.

BIOEFFECT hóf sókn sína á Bandaríkjamarkað árið 2017 og er nú selt í virtum verslunum á borð við Bergdorf Goodman, Neiman Marcus og Cos Bar. Snemma í sumar hófst svo undirbúningur fyrir sölu vörulínunnar innan Sephora. BIOEFFECT er svokallað „scouted brand“ innan Sephora, en í því felst að verslunarkeðjan sóttist af fyrra bragði eftir því að fá að selja vörurnar.

Sephora er sannkallað stórveldi á snyrtivörumarkaði með um 2.300 verslanir í 33 löndum um allan heim, þar af 430 verslanir í Bandaríkjunum, en fyrsta verslunin var stofnuð í Frakklandi árið 1970. Á síðasta ári, meðan margar af helstu keðjum á markaðinum börðust í bökkum, jókst salan hjá Sephora USA um 6% milli ára en velta keðjunnar nam ríflega 4 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári. Í verslununum Sephora má finna flest af stærstu snyrtivörumerkjum heims og auk þess fyrirtækið rekur sínar eigin vörulínur.