Ríkissaksóknari í Sviss segir að þarlendir saksóknarar sem rannsaka meinta spillingu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hafi fundið 53 grunsamlegar bankamillifærslur tengdar sambandinu. Rannsóknin sé flókin og gæti tekið langan tíma.

Michael Lauber ræddi við blaðamenn í dag og sagðist jafnframt ekki útiloka að Sepp Blatter, forseti FIFA, yrði boðaður í yfirheyrslur, sem og framkvæmdastjórinn Jerome Valcke. Til þessa eru svissnesk yfirvöld þó ekki að beina spjótum sínum að neinum sérstökum aðilum.

Spilling hefur lengi verið viðloðandi FIFA en eftir að fjöldi starfsmanna sambandsins var handtekinn í áhlaupi svissneskra yfirvalda hafa alvarlegar ásakanir komið upp á borðið, sem enduðu á því að Blatter sagði af sér rétt eftir að hafa tryggt sér forsetaembættið á nýjan leik. Meðal annars eru ásakanir um mútugreiðslur tengdar heimsmeistaramótunum 2018 og 2022 í Rússlandi og Katar.

„Rannsóknin er gríðarlega flókin og nær yfir fjölmörg landamæri,“ sagði ríkissaksóknarinn Lauber á blaðamannafundi, en þetta er í fyrsta skiptið sem hann ræðir rannsóknina opinberlega.

„Það væri ófagmannlegt að fullyrða í augnablikinu hversu langan tíma þetta tekur. Knattspyrnuheimurinn verður að vera þolinmóður. Þessi rannsókn mun eðlilega taka lengri tíma en hinar goðsagnakenndu 90 mínútur,“ bætti hann við og vísaði þarna í lengd fótboltaleiks.

„Það verður rætt við alla hlutaðeigandi aðila. Það þýðir að ekki er útilokað að rætt verði við forseta FIFA eða framkvæmdastjóra FIFA.“

Þá tilkynnti þriðji stærsti banki Sviss, Julius Baer, í dag að hann hefði hrint af stað rannsókn á eigin vegum í tengslum við FIFA.