Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sér ekki fyrir sér að Rarik og Landhelgisgæslan verði flutt út á land líkt og Norðvesturnefnd hefur lagt til. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu RÚV .

Hann segir hins vegar nauðsynlegt að skapa ný störf á landsbyggðinni. „Við þurfum að finna leiðir til þess að kannski skapa störf úti á landi og nýta rafræna stjórnsýslu til að láta uppbyggingu nýrra starfa jafnt eiga sér stað úti á landsbyggðinni eins og hér á höfuðborgarsvæðinu, það eru fjölmörg tækifæri til þess held ég,“ segir Bjarni í samtali við RÚV. Engin ákvörðun hafi hins vegar verið tekin um flutning stofnana.