Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og þingmaður, telur að fylgishrun Samfylkingarinnar eigi sér líklega tvennar rætur. „Annars vegar voru Evrópumálin skrúfa á sál Samfylkingarinnar. Það var alveg sama hvernig mál þróuðust innan Evrópusambandsins – ég nefni Grikklandskrísuna sem dæmi – aldrei breyttist afstaða flokksins og ég held að fólk hafi einfaldlega farið að velta fyrir sér hvað þarna væri á matseðlinum.

Eins held ég að flokkurinn hafi gengið fulllangt í daðri sínu við markaðshyggjuna. Ég held hins vegar að ef félagslega sinnað fólk nær aftur vopnum sínum innan flokksins sé honum við bjargandi. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni gætu VG og Samfylking sameinast, að þessu gefnu. Ýmislegt hefur breyst frá því að Samfylkingin var stofnuð og við stofnuðum VG og má sem dæmi nefna að Atlantshafsbandalagið er, illu heilli, ekki eins stórt mál innan VG og það var. Þannig að ég held að snertifletirnir á milli flokkanna tveggja séu fleiri en áður.“

Þetta er einungis stutt brot úr ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér .