Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í marsmánuði samkvæmt nýútgefnum tölum Þjóðskrár Íslands. Fjölbýli hækkaði í verði um 0,2% í mánuðinum en sérbýli lækkaði hins vegar um 1,1%. Raunverð íbúða lækkaði um 0,6% á milli mánaða.

Áfram hægir á 12 mánaða hækkunartakti íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð hækkað um 7,7% sem er minni árshækkun en mælst hefur síðan í mars 2016. Árshækkun raunverðs íbúða mælist nú um 4,8%, en það er minnsta hækkun sem mælst hefur síðan í febrúar 2016 þegar 12 mánaða hækkun raunverðs var svipuð og nú.

Þó sérbýli hafi nú lækkað í verði annan mánuðinn í röð er 12 mánaða hækkun sérbýlis enn meiri en 12 mánaða hækkun fjölbýlis. Undanfarið ár hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 8,1% en fjölbýli um 7,3%.

594 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var þinglýst í mars sem er 134 samninga aukning frá mánuðinum á undan og flestir samningar innan mánaðar það sem af er ári. Þeir voru hins vegar um 18% færri en í sama mánuði árið áður. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Íbúðalánasjóði.