Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2006 jókst um 50 milljarða króna, eða um 34% og nam um 198 milljörðum króna samanborið við rúmlega 146 milljörðum í árslok 2005. Séreignarsparnaður í heild nam um 13% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2006 segir í frétt Fjármálaeftirlitsins.

Í frétt FME kemur fram að langstærstur hluti uppsafnaðs séreignarsparnaðar í árslok 2006 var í vörslu lífeyrissjóða sem voru hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eða 117,4 ma.kr. Í kjölfar þessara sjóða koma vörsluaðilar aðrir en lífeyrissjóðir, þ.e. bankar, sparisjóðir, verðbréfasjóðir og líftryggingafélög, sem voru með 55,7 ma.kr. í sinni vörslu í árslok 2006 og að lokum aðrir lífeyrissjóðir með 24,5 ma.kr. í vörslu. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 22 milljörðum króna í 25,7 milljarða króna á árinu 2006.