Verdicta, sem gefur út PensionPro - matskerfi lífeyrissjóða, hefur verðlaunað Stapa lífeyrissjóð sem Séreignasjóð ársins 2017 eftir að hafa sett saman einkunnir og mat á öllum þeim 74 séreignaleiðum sem eru í boði hér á landi.

Fékk Stapi jafnframt frammistöðuverlaun fyrir að vera góður langtímavalkostur, hvort tveggja fyrir það sem samantektin kallar Áræðna safnið og fyrir Varfærna safnið. Einnig fengu Allianz, fyrir Ævilífeyri, EUR ávöxtun, Arion banki fyrir Lífeyrisauka 5 og Lífeyrissjóður verslunarmanna fyrir Verðbréfaleið frammistöðuverðlaunin.

Allianz fékk svo að auki Gagnsæisverðlaunin sem segir að upplýsingagjöf frá sjóðnum hafi verið til fyrirmyndar.

Í úttekt Verdicta, sem er undir stjórn Hallgríms Óskarssonar, sem sinnir þar ráðgjöf ásamt öðrum, rannsóknum og framkvæmdastjórn, kemur fram að þessar niðurstöður byggi á greiningu á gögnum úr PensionPro kerfinu, þar sem söguleg gögn eru skoðuð og greind til að varpa ljósi á frammistöðu einstakra sjóða.

Í rökstuðningi fyrir vali á Stapa sem séreignalífeyrissjóði ársins kom fram að tvær af séreignaleiðum sjóðsins væru í efstu sætunum yfir ávöxtun séreignaleiða, séu gögn skoðuð langt aftur í tímann, þar séu litlar sveiflur, einkum yfir erfið tímabil, löng saga og ágæt upplýsingagjöf. Nánar má lesa um rökstuðning Verdicta fyrir verðlaununum hér .