Frá miðju ári 2014 og fram til loka mars 2017 hafa alls 3.514 einstaklingar nýtt sér heimild til að nota séreignasparnað sinn sem útborgun fyrir íbúð. Hefur þessi hópur því samtals nýtt 1,1 milljarð króna til að afla sér húsnæðis að því er Kjarninn greiðir frá, en tölurnar fékk fjölmiðill sem svar við fyrirspurn sini til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Er annars vegar um að ræða heimild sem allir Íslendingar fengu í leiðréttingaráætlunum síðustu ríkisstjórnar, um að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Gildir sú heimild fram til júníloka 2019, en hins vegar er um að ræða sérstök úrræði stjórnvalda fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign.

Hægt að nýta í tíu ár

Felst hún í því að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign geta nýtt séreignasparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður lán, nota sem útborgun eða lækka afborganir í tíu ár.

Þegar síðara úrræðið var kynnt til sögunnar þann 15. ágúst í fyrra, rétt um tveimur mánuðum fyrir síðustu kosningar, sögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar að áætlunin myndi gefa fyrstu fasteignakaupendum 15 milljarða króna skattaafslátt á tíu ára tímabili, ef vildu nýta sér úrræðið.

Heildaráhrif aðgerðanna, þegar einnig leggst til möguleikinn á að lækka mánaðarlegar afborganir með því að greiða séreignasparnaðinn beint inn á höfuðstól lána sinna, átti að vera 50 milljarðar króna. Til þess að 15 milljarða talan geti náðst þyrftu 14 þúsund manns að nýta sér úrræðið strax á árinu 2017, og svo þyrftu 2.000 manns að bætast í hópinn árlega eftir það.