Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, lýsti á fundi Félags atvinnurekenda í dag, verulegum efasemdum um að rétt hefði verið að hækka skylduiðgjöld svo mikið. Færa mætti rök fyrir því að betra hefði verið fyrir launþega að fá hækkunina í vasann fremur en að vera skyldaðir til að spara meira. Hann sagði að ráðgjöf sín til launþega væri óbreytt; ungt fólk ætti að leggja áherslu á að greiða séreignarlífeyrissparnað inn á lán eða á húsnæðissparnaðarreikninga eins og tímabundin heimild væri nú til að gera.

Hann galt hins vegar varhug við hugmyndum um að setja hækkun lífeyrisiðgjaldsins í svokallaða „bundna séreign“ sem kveðið er á um í kjarasamningunum frá því í janúar, ef í því ætti að felast að hún væri til dæmis bundin til sjötugs. Barist hefði verið fyrir því á sínum tíma að séreignarsparnaður væri laus þegar fólk væri um sextugt, þannig að fólk gæti til dæmis greitt niður skuldir. Reynslan sýndi að flestir pössuðu vel upp á þessa peninga.

Gunnar gaf stjórnvöldum þau ráð að skoða að festa húsnæðissparnaðinn í sessi; að einstaklingar geti greitt viðbótarlífeyrissparnað inn á húsnæðislán eða á húsnæðissparnaðarreikninga til íbúðarkaupa. Hugsa mætti sér að einstaklingur gæti safnað einum árslaunum á 13 árum, sem væri þá fjórðungur af verði íbúðar og ríkið hjálpaði til með skattaafslætti.