TVG-Zimsen hefur fjárfest í sérhæfðum lyfjaflutningabíl sem hannaður er útfrá ítrustu kröfum um flutning lyfja í samráði við Thermo King og SKAAB. Um er að ræða Scania P360 með sérhannaðan flutningakassa frá SKAAB og öflugri Thermo King kæli-hitavél.

„Þetta er fyrsti lyfjaflutningabíllinn sem er sérstaklega hannaður fyrir íslenskar aðstæður. Bíllinn mun vera í akstri hér á höfuðborgarsvæðinu og flytja lyf til og frá viðskiptavinum. Bíllinn er framleiddur í Svíþjóð og fór þaðan á rannsóknarstöð Thermo King í Prag í Tékklandi, þar sem hann fór í gegnum margskonar próf er varða einangrun og virkni hita-/kælivélar. Könnuð var virkni bílsins við krefjandi aðstæður, -30°C og +40°C útihitastig. Helstu eiginleikar nýja bílsins eru að flutningskassinn er með mikilli einangrun í veggjum, hólfi og gólfi. Að auki er bíllinn frábrugðinn hefðbundnum flutningabílum á þann máta að hann er einnig með einangruðum hurðum að aftan, í stað lyftublaðs sem veitir litla einangrun,“ segir Andrés Björnsson, faglegur forstöðumaður PharmaHealth hjá TVG-Zimsen.

Bíllinn er með sérstaklega öflugri kæli-/hitavél sem mun nýtast vel við íslenskar aðstæður þar sem mest mæðir á að hægt sé að ná upp hita þegar útihitastig er lágt eða frost í lofti. Meðal annarra eiginleika bílsins má nefna hraðlokandi fellitjald að aftan svo ekki tapist hiti úr bílnum við lestun og losun en bílstjóri er með fullkomna yfirsýn yfir hitastig bílsins.

„Það er frábært að vera kominn með þennan nýja bíl í notkun og geta boðið akstur lyfja samkvæmt ítrustu kröfum og á enn öruggari hátt en áður. TVG-Zimsen hefur metnað til að vera í fararbroddi þegar kemur að lyfjaflutningum og er þetta stórt stökk í þeirri stefnu okkar,“ segir Andrés ennfremur.