Veitingastöðum Serrano í Svíþjóð verður breytt í byrjun næsta mánaðar. Þeir verða innréttaðir upp á nýtt og fá staðirnir nýtt nafn. Þeir munu eftirleiðis heita Zocalo. Þetta er ekki eina breytingin framundan hjá Serrano-mönnum en þrír nýir staðir opna í miðborg Stokkhólms á næstu mánuðum. Breytingin er til komin eftir að sænska félagið Gavia Food Holding bættist við hluthafahóp Serrano í Svíþjóð. Félagið átti áður vörumerkið Santa Maria sem margir þekkja.

Í tilkynningu frá Serrano er haft eftir Emil Helga Lárussyni, annar tveggja stofnenda fyrirtækisins, að ráðist hafi verið í nafnabreytinguna til að koma í veg fyrir margvíslegan misskilning. Serrano sé ekki aðeins nafn á mexíkóskum chilipipar heldur samnefndri skinku þá haldi margir Svíar að Serrano bjóði upp á tapas-rétti.

„Við töldum því rétt að skipta um nafn og árétta mexíkóskar áherslur okkar áður en við höldum sókninni áfram. Serrano á Íslandi heldur hins vegar sínu gamla og góða nafni,“ er haft eftir Emil í tilkynningu.

Nafnið Zocalo er dregið af heitinu á stærsta torginu í Mexíkóborg.  Þar hittir fólk vini og fjölskyldu, skemmtir sér og borðar góðan mexíkóskan mat.