Forsetafrúin var meðal þeirra sem komu fram fyrir hönd Íslands á ferðasýningunni ITB sem haldin var í Berlín um síðustu helgi – en Íslandsstofa skipulagði sameiginlegan bás fyrir hönd þjóðarinnar – þar sem sérstök áhersla var lögð á sérstöðu Íslands.

Ferðasýningin ITB var haldin í Berlín í síðustu viku í 53. skiptið, en hún er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Íslendingar létu sig að sjálfsögðu ekki vanta, enda tekið þátt í sýningunni í áratugi.

Sýningin skiptist í þrjá daga fyrir aðila innan greinarinnar sjálfrar og tvo daga þar sem opið var fyrir almenning. Meðal fulltrúa Íslands var sjálf forsetafrúin, Eliza Reid, sem flutti erindi á ráðstefnuhlutanum, en hún hefur verið skipuð sérlegur sendiherra sjálfbærrar ferðaþjónustu hjá ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta var svokölluð fagsýning frá miðvikudegi til föstudags. Við vorum þarna annars vegar að kynna okkar vörur fyrir þeim sem komu og voru að leita upplýsinga, en svo hins vegar vorum við búin að bóka heilmikið af viðtölum við aðila sem höfðu verið í sambandi við okkur fyrir sýninguna,“ segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Hey Iceland.

Tilgangurinn hafi ýmist verið að hitta viðskiptafélaga til að fara yfir málin og hvað sé framundan, eða stofna til nýrra viðskipta. Um helgina var fyrirtækið svo með kynningu fyrir almenning, og var þá með starfsmann á básnum sem kynnti þjónustu þess og vörur fyrir öllum sem áhuga höfðu.

Alls tóku 29 íslensk fyrirtæki þátt, auk þriggja markaðsstofa, sem samanlagt höfðu á sínum snærum hátt í 100 Íslendinga á svæðinu. Þátttaka Íslands er sú stærsta hingað til, en Íslandsstofa annaðist skipulagningu sameiginlegs Íslands-báss, sem sýnir undir merkjum Inspired by Iceland átaksins.

Fyrst að taka loforð um umgengni

Sigríður Ragnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, segir sérstaka áherslu hafa verið lagða á ábyrga ferðaþjónustu síðustu ár, meðal annars með því að ýta undir ferðaþjónustu um allt land, allt árið um kring.

„Við erum alltaf að hamra á þessu að ferðast á ábyrgan hátt. Við vorum fyrst í heiminum til að setja á fót verkefni þar sem við tökum loforð af ferðamönnum um að ganga vel um landið, setja sig ekki í óþarfa hættu og nokkur fleiri atriði. Við köllum það ‚The Icelandic pledge‘, eða ‚íslenska loforðið‘.“

Ferðamönnum sem koma til landsins er boðið að skuldbinda sig með því að ýta á hnapp í Leifsstöð eða á netinu. „Þetta var ein af okkar nálgunum til að hvetja fólk til að ganga vel um náttúruna og ferðast á ábyrgan hátt,“ segir Sigríður.

Leiðarstefið segir hún vera þá sérstöðu sem Ísland hefur sem áfangastaður, og þá kosti og galla sem hún feli í sér. „Ísland er ekkert endilega fyrir alla. Ísland er fyrir þá sem eru að leita að einhverju nýju og öðruvísi, og við reynum að ná til ákveðinna markhópa sem við megum vænta að sé fólk sem ber virðingu fyrir íslenskri náttúru og hefur áhuga á að kynnast menningunni okkar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .