Frá árinu 2011 hafa fimm nýjir skattar verið lagðir á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. Fjármálafyrirtæki hafa frá því ári greitt samtals 108,8 milljarða i sérstaka skatta.

Sérstöku skattarnir skiluðu alls 42,6 milljörðum í ríkissjóð á síðasta ári sem var 9,4 milljörðum minna en árið áður. Sérstöku skattarnir eru því að skila 23,2% af heildar álagningu fjármálafyrirtækja, eða 42,6 milljarðar af 183,8 milljörðum.

  1. Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki
  2. Viðbót á sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki
  3. Sérstakt gjald á lífeyrissjóði
  4. Fjársýsluskattur
  5. Sérstakur fjársýsluskattur

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki var lagður á 2011. Hann er lagður á heildarskuldir fjármálafyrirtækja samkvæmt skattframtali og nemur 0,041%. Á fyrsta ári skilaði hann 1,1 milljarði í tekjur. Álagningin nú er 0,376% og er lagður á heildarskuldir umfram 50 milljörðum, auk þess sem skatturinn er lagður á banka í slitameðferð. Hann skilaði nú alls 33,7 milljörðum.

Viðbót á sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki var lögð á árin 2012 og 2013. Viðbótin nam 0,0814% af sama gjaldstofni og sérstaki skatturinn. Viðbótin skilaði 2,4 milljörðum hvort árið.

Sérstakt gjald var sett á lífeyrissjóði árið 2012 en gjaldið nam 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Gjaldið var lagt á 35 lífeyrissjóði og skilaði tæpum 1,7 milljörðum króna.

Fjársýsluskattur var fyrst lagður á árið 2013 en hann leggst á allar tegundir launa og þóknanna hjá fjármálafyrirtækjum, verðbréfafyrirtækjum, tryggingarfélögum auk Íbúðalánasjóðs. Skatturinn var 5,45% þegar hann var fyrst lagður á, en hann er nú 5,5%. Hann skilaði 2,9 milljörðum króna í fyrra.

Sérstakur fjársýsluskattur var lagður á árið 2013. Skatturinn er 6% viðbótartekjuskattur sem leggst á tekjuskattstofn fjármálafyrirtækja sem greiða fjársýsluskatt. Árið 2014 var var ekki tekið tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps, en við það hækkaði skatturinn úr tæpum 1,8 milljörðum í 13,1 milljarð. Skatturinn skilaði 7,1 milljarði í álagningu 2014.

Þetta kemur fram í  grein eftir Pál Kolbeinsson, rekstrarhagfræðing hjá Ríkisskattstjóra, en greinin birtist í Tíund.