Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært Gunnlaug Briem fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum vegna vantaldra tekna upp á tæpar 600 milljónir króna á árunum 2006 til 2008 og undanskots á sköttum upp á 60 milljónir króna. Gunnlaugur var umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði en hann gerði 584 gjaldmiðlasamninga á þessum þremur árum. Á sama tíma vann hann á eignastýringarsviði Lífeyrissjðs verslunarmanna.

Ákæran var gefin út 22. janúar síðastliðinn og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Fram kemur í ákærunni að Gunnlaugur gerði gjaldmiðlasamninganna við Landsbankann og Íslandsbanka (síðar Glitni) í evrum og krónum. Háar fjárhæðir voru á bak við einstök viðskipti og hlupu þau frá 100 milljón króna og allt yfir 630 milljónir.

Meiri háttar brot á skattalögum varða við 1. mgr. 262 greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. gr. laga nr. 39/1995 og 1. mgr. L109. gr. laga nr. 90/ 2003 um tekjuskatt. Þeir sem fundnir eru sekir um brot á lögunum geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm og greiðslu sektar allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn. Hún verður þó aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni.

Mörg skattamál frá sérstökum

Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært nokkra einstaklinga fyrir meiri háttar brot á skattalögum og vb.is hefur fjallað um. Þar á meðal eru Bjarni Ármannsson , fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Eiríkur Sigurðsson , sem kenndur er við verslunina Víði, og Ragnar Þórisson , stofnandi og sjóðsstjóri hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital. Mál Eiríks er það stærsta sem vb.is hefur greint frá til þessa en honum er gefið að sök að hafa vantalið tekjur sínar um 800 milljónir króna árið 2007 og komið sér hjá því að greiða 81 milljón króna í skatt.

Greint var frá ákærunni á hendur Bjarna vikunni vegna undanskots á sköttum upp á um 20 milljónir króna á árunum 2007 til 2009. Bjarni sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér samdægurs að mistök hafi verið gerð við skattframtalsgerð. Hann hafi þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi og undrist hann að málið hafi farið í ákærumeðferð.