Embætti sérstaks saksóknara hefur á síðustu vikum verið tilkynnt tugum einstaklinga að símar þeira hafi verið hleraðir. Dæmi eru um að meira en eitt og hálft ár líði frá því að embættið fær heimild til hlerunar og þar til eiganda er tilkynnt um hleranirnar. Fréttablaðið greinir frá málinu í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa til dæmis þeir sem eru til rannsóknar vegna falls Kaupþings og Sjóvár fengið bréf vegna hlerana.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við blaðið að það hafi verið unnið jafnt og þétt upp á síðkasti að tilkynna um hleranir í þeim málum þar sem menn sjá til lands og telji ekki ástæðu til að beita úrræðinu frekar. „Við værum að skjóta okkur í fótinn ef við tilkynntum of snemma um hleranir, þetta byggir á því að viðkomandi viti ekki að síminn sé hleraður,“ segir hann. Tilkynnt er um hleranir um leið og ljóst er að úrræðið verður ekki notað frekar. Samkvæmt lögum ber að tilkynna þeim sem hlerað er hjá um hleranir svo fljótt sem verða má.