Upphæð útistandandi sértryggðra skulda bankanna hefur vaxið hratt undanfarin misseri. Samkvæmt nýjustu opinberu upplýsingum frá bönkunum nema skuldir þeirra vegna sértryggðra bréfa sem skráð eru á markað samtals yfir 104 milljörðum króna.

Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir sértryggð skuldabréf hafa verið að taka yfir hlutverk íbúðabréfa við fjármögnun íbúðalánamarkaðarins. „Þetta er í frekar litlum mæli enn sem komið er borið saman við íbúðabréf, en markaðurinn með sértryggð skuldabréf hefur sífellt verið að stækka að undanförnu. Með aukinni viðskiptavakt hefur seljanleiki bréfanna aukist umtalsvert undanfarið og velta með sértryggð bréf aukist á sama tíma og velta með íbúðabréf hefur dregist saman,“ segir Hrafn.

Hann segir að með auknum seljanleika ættu sértryggðu bréfin að verða áhugaverður fjárfestingarkostur fyrir breiðari hóp fjárfesta en verið hefur. „Hingað til hafa mikið til langtímafjárfestar eins og lífeyrissjóðir viljað kaupa löng verðtryggð sértryggð bréf og sitja á þeim til gjalddaga. En með auknum seljanleika er auðveldara að kaupa og selja bréfin eftir hentugleika. Þá opnast auðvitað fyrir breiðari hóp fjárfesta. Við höfum séð núna stofnaða fjárfestingarsjóði sem einblína sérstaklega á sértryggð skuldabréf,“ segir Hrafn, en til að mynda stofnaði GAMMA slíkan sjóð í febrúar og Íslandssjóðir fyrr í þessum mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .