Fyrsta áfanganum í byggingu kísilmálmverskmiðjunnar lauk síðastliðinn ágúst og síðan þá hefur félagið verið að prófa framleiðslubúnaðinn og undirbúa gangsetningu. Aðal verksmiðjuhúsið er 38 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð. Alls samanstendur verksmiðjan af sjö húsum.

40 milljarða kostnaður

„Í ofnhúsinu er 32 megavatta ljósbogaofn, sem félagið hefur gefið nafnið Ísabella. Ofninn framleiðir kísilmálminn við 1900 gráðu hita við efnabreytingu af kvartsgrjóti. Í fyrsta áfanga verða framleidd 22.900 tonn í ofninum. United Silcion hefur fengið starfsleyfi fyrir alls fjórum ofnum og er verksmiðjan hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan um 90.000 tonn á ári og verður verksmiðjan þá stærsta kísilverksmiðja í heimi. Kostnaðurinn við fyrsta áfanga verksmiðjunnar var um 12 milljarðar króna en fullbyggð mun hún kosta um 40 milljarða króna,“ segir í fréttatilkynningunni.

Haft er eftir Helga Birni, yfirverkfræðingi United Silicon, að þau hjá United Silicon séu ánægð og stolt á þessum stóru tímamótun. „Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni sem hefur á uppbyggingartíma skapað hátt í 300 störf og rúmlega 60 störf þegar verksmiðjan hefur starfsemi,“ er haft eftir Helga.