Fasteignafélagið 235 Fasteignir hefur sett íbúðir á Ásbrú í sölu. Íbúðirnar eru sérstaklega hugsaðar fyrir fjölskyldufólk og fyrstu íbúðarkaupendur og eru á afar hagstæðum kjörum eða frá 22 milljónum króna að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Fasteignafélagið hefur sett átta íbúðir á Ásbrú, gamla varnarliðssvæðinu, í sölu. Áætlað er að 235 Fasteignir muni selja fleiri íbúðir á svæðinu á næstu mánuðum.

Í fyrsta kasti er um er að ræða átta íbúðir, einn stigagang, í þriggja hæða húsi. Íbúðirnar eru frá 89 m2 að stærð og er ásett verð frá 22 milljónum króna. „Við leggjum mikla áherslu á að selja fjölskyldufólki eða fyrstu íbúðarkaupendum en ekki stórum félögum sem starfa á leigumarkaði,” segir Ingi Júlíusson, framkvæmdastjóri 235 Fasteigna. „Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum er mikil og mun aukast á næstu árum. Á þessu svæði hefur vöxturinn verið hvað mestur á landinu síðustu ár sem sér ekki fyrir endann á. Framtíðin er svo sannarlega björt á Suðurnesjum,” bætir hann við.

Mikil eftirspurn á Suðurnesjum

Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á Suðurnesjum. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúum á svæðinu eigi eftir að fjölga um 55% á næstu árum og að þeir verði tæplega 35 þúsund árið 2030. Mikill atvinnuppbygging hefur verið á Suðurnesjum síðustu ár og þar starfa mörg af stærstu fyrirtækjum landsins. Í nýlegri skýrslu Reykjavík Economics um Suðurnesin kemur fram að aukin fólksfjölgun hafi stutt við íbúðamarkaðinn en íbúum svæðisins fjölgaði um 6,6% á árinu 2016. Heildarmannfjöldi á Suðurnesjum nálgaðist 25 þúsund manns í byrjun árs 2017.

Íbúðirnar átta sem eru nú komnar á sölu eru í fjölbýlishúsahverfi við Skógarbraut 919. Talsverðar endurbætur hafa verið gerðar á íbúðunum á síðustu misserum bæði að innan sem og að utan. „Gríðarleg uppbygging hefur verið á Ásbrú síðustu ár og nú búa um 2.700 manns á svæðinu – mest fjölskyldufólk. Fyrr í mánuðinum fékk Reykjanesbær húsnæði undir leikskóla að gjöf frá fasteignafélögunum 235 Fasteignum og Heimavöllum. Fyrirhugaður leikskóli er í næsta húsi við íbúðirnar sem nú fara á sölu við Skógarbraut. Fyrir á svæðinu eru tveir leikskólar og einn grunnskóli með um 250 nemendur,“ segir að lokum í fréttatilkynningu.

Ásbrú - íbúð
Ásbrú - íbúð