Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar kaup SÍA III slhf. á 70% af hlutafé í Stál í stál ehf. Samhliða fjárfestingu í félaginu gera SÍA III og SA ehf. (seljandi) með sér hluthafasamkomulag sem leiðir til þess að þessi félög fara sameiginlega með yfirráð yfir Stál í stál.

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að nauðsynlegt sé að setja umræddum samruna skilyrði. Skilyrðunum er ætlað að tryggja sjálfstæði Stál í stál sem keppinautar á markaði gagnvart Arion banka. Þá er jafnframt kveðið á um tiltekna meðferð á trúnaðarupplýsingum gagnvart þeim aðilum sem kunna að eiga hluti í öðrum fyrirtækjum sem starfa á tengdum samkeppnismörkuðum.

Í samrunaskrá segir að starfsemi SÍA III sé fjárfestingastarfsemi og markmið þess sé að fjárfesta í traustum og arðbærum fyrirtækjum. SÍA III er samlagshlutafélag og eru hluthafar félagsins að mestu fagfjárfestar, þá aðallega lífeyrissjóðir. Á grundvelli rekstrarsamnings SÍA III við Stefni, dótturfélag Arion banka, hefur fyrirtækið víðtæka aðkomu að sjóðnum og hníga sterk rök til þess að Stefnir fari með yfirráð yfir sjóðnum í skilningi samkeppnislaga.