Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, fyrr­ver­andi iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, vinn­ur nú að því að koma á laggirnar sjávarklasa í Seattle í Washington-fylki í Bandaríkjunum að íslenskri fyrirmynd.

Þór Sigfússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann segist ánægður með forystu Ragnheiðar um verkefnið.

Þór vísar þar í grein á sjávarútvegsvefnum IntraFish um málið. Þar segir að árangur af íslenska sjávarklasanum hafi leitt til þess að hópurinn hafi fært út kvíarnar til Bandaríkjanna. Þannig hafi formlegum vettvangi fyrir samstarf fyrirtækja, frumkvöðla, fjárfesta og fræðimanna í sjávarútvegi verið komið á fót fyrir nokkrum árum á austurströnd Bandaríkjanna undir nafninu New England Ocean Cluster. Stefnt er að opnun slíkrar miðstöðvar á næstu mánuðum í Portland í Maine-fylki. Verkefni Ragnheiðar verður hins vegar á vesturströndinni.

Ragnheiður var ráðin sem sérfræðingur í orkumálum hjá bandarísku hugveitunni Atlantic Council í byrjun mars síðastliðinn. Hugveitan starfar í Washington-fylki.