Á síðustu 15 mánuðum hefur fasteignaverð í Kína rokið upp, má þar nefna að í borginni Xiamen mældist árlegur vöxtur fasteignaverðsins 40% í ágústmánuði.

Reyna nú stjórnvöld að róa húsnæðismarkaðinn í stærstu borgum landsins, með ströngum reglum og beita þeir jafnvel of refsingum á fasteignasala.

Berjast gegn spákaupmennsku

Sveitarstjórnaryfirvöld í borgunum hafa gripið til ýmissa ráða til að reyna að hægja á vextinum og draga úr spákaupmennsku með húsnæði. Hangzhou borg, þar sem G20 fundurinn var haldinn fyrr í mánuðinum, hefur innleitt reglur sem skilyrða kaupendur á verðmætu landi til að greiða fyrir það innan eins mánaðar.

Er það gert til að reyna að draga úr spákaupmennsku með land. Húsnæðisbólan sem nú er verið að reyna að halda aftur af kemur til vegna fyrri tilrauna til að draga úr offramboði með því að lækka stimpilgjöld og skilyrði um innborgun.

Takmarkanir settar á rétt til húsnæðiskaupa

Nanjing borg, höfuðborg Jiangsu héraðs ákvað á mánudag að takmarka húsnæðiskaup þeirra sem ekki hafa ábúendarétt í borginni við eina eign og banna þeim sem hafa ábúendarétt að eignast fleiri eignir ef eiga tvær eða fleiri fasteignir.

Á sama tíma vöruðu leiðarahöfundar í People´s Daily, málgagni kommúnistaflokksins sem ræður landinu við spákaupmennsku í húsnæðismarkaðnum.

Fasteignasölum refsað

Einnig hafa stjórnvöld beint sjónum sínum að fasteignasölum sem virðast reyna að vera að koma af stað orðrómum um að íbúar verði að kaupa strax annars missi þeir af kaupunum.

Bankayfirvöld í Shanghai birti á mánudag svartan lista yfir fasteignasala sem lánveitendur í borginni máttu ekki lána til. Tveir fasteignasalar frá Chengdu voru svo handteknir á mánudag vegna gruns um að þeir hefðu komið af stað fölskum sögusögnum.

Sex fermetra íbúð á 15 milljónir

Um helgina fóru kínverskir miðlar á hliðina vegna orðróms um að heil bygging með sex fermetra smáíbúðum sem hver um sig kostaði 880 þúsund kínversk júan, eða 132 þúsund dali, andvirði 15 milljóna króna, hefðu orðið uppseld á einum degi.

Á mánudag var svo tilkynnt um að einungis hefðu 11 slíkar íbúðir verið til sölu og þar af hefðu 6 þeirra selst. Ráðuneytið sem sér um lóðamál sagði í tilkynningunni að fasteignasalinn sem bæri ábyrgð á orðróminum myndi fá makleg málagjöld.