*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 1. júlí 2012 15:20

Sex kosningar á fjórum árum með misjafnri þátttöku

Kosningaþátttaka í kosningum um stjórnlagaþing sker sig úr í tölum um almenna kosningaþátttöku. Seinni Icesave kosningin var vel sótt.

Gísli Freyr Valdórsson

Kosningaþátttaka á Íslandi er almennt góð miðað við vestræn lýðræðisríki þar sem kosningaþátttaka er í mörgum tilfellum frekar dræm. Öllu jafna er kosningaþátttaka hér á landi, hvort sem er í alþingis- eða sveitastjórnarkosningum, um eða yfir 75-80% þó hún hafi farið minnkandi síðustu ár og þá helst í sveitastjórnarkosningum.

Nokkuð hefur verið fjallað um dræma kosningaþátttöku í forsetakosningunum í gær þar sem kjörsókn var tæplega 70%. Í síðustu forsetakosningum, sumarið 2004, var kjörsókn aðeins um 63% en í forsetakosningunum árið 1996, árið sem Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti, var kosningaþátttaka tæplega 86%.

Til gamans, og upprifjunar, má geta þess að síðustu ár hafa farið fram nokkuð margar kosningar miðað við það sem gerist og gengur hér á landi. Ef við miðum við hrunið 2008, eins og Íslendingum er tamt að gera þessi misserin, þá hafa verið sex kosningar frá þeim tíma. Einar alþingiskosningar (árið 2009), einar sveitastjórnarkosningar (2010), kosning um stjórnlagaþing (2010), tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave samningana (2010 og 2011) og loks forsetakosningarnar í gær.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var töluverð þátttaka í alþingiskosningunum vorið 2009, eða um 85%. Kjörsóknin í sveitastjórnarkosningum árið eftir, vorið 2010, minnkaði töluvert og nam 73,5%, sem var nokkuð minni þátttaka en í sveitastjórnarkosningum árið 2006 þegar hún nam tæplega 79%.

Nokkrum mánuðum áður, eða í mars 2010, höfðu tæplega 63% kjörbærra manna greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samningana, hina svokölluðu Icesave II samninga. Rétt er að rifja upp að bæði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, greiddu hvorugt atkvæði í þeim kosningum og hvöttu landsmenn til að sitja heima.

Minnst var kosningaþátttakan þó í þriðju kosningunum það árið, eða í kosningu til stjórnlagaþings haustið 2010. Þá var kosningaþátttakan aðeins tæplega 37% sem varla þekkist hér á landi. Óhætt er að segja að áhugi landsmanna á stjórnlagaþinginu hafi verið afskaplega lítill, svo vægt sé til orða tekið, jafnvel þó um 500 manns hafi verið í framboði. Til upprifjunar má geta þess að í janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosninguna ógilda en þá brá meirihluti Alþingi á það ráð að skipa þá 25 einstaklinga sem kjörnir höfðu verið í hinum ógildu kosningum í það sem síðar var kallað stjórnlagaráð. Það ráð hefur nú lokið störfum og bíða tillögur þess afgreiðslu á Alþingi.

Í apríl 2011 gengu landsmenn enn einu sinni að kjörborðinu, en þá hafði nýjum lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna (Icesave III samningana eins og þeir eru gjarnan kallaðir) verið synjað af forseta og vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Rúmlega 75% kjörbærra manna mætti á kjörstað og kolfelldi samninginn eins og þekkt er.

Hér að neðan má sjá graf yfir kosningaþátttöku kosningum sl. áratug að viðbættum forsetakosningum árið 1996.