*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 19. október 2017 13:57

Sex mjólkurbú seldu frá sér kvóta

Ríkið keypti og seldi aftur tæplega 500 þúsund lítra mjólkurkvóta fyrir um 80 milljónir króna.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Á þriðja innlausnardegi fyrir greiðslumark mjólkur þann 1. september 2017 óskuðu 6 bú eftir að ríkið innleysti greiðslumark, samtals 497.974 lítra, og við bættust 74.978 lítrar frá fyrri innlausn. Alls voru því 572.952 lítrar til úthlutunar að upphæð 79.067.376 krónur að því er segir í fréttatilkynningu frá Matvælastofnunar.

Gild kauptilboð á greiðslumarki voru frá 20 framleiðendum og var alls óskað eftir að kaupa 990.000 lítra að upphæð 136.620.000 krónur. Matvælastofnunar annast innlausn greiðslumarks í samræmi við samning um starfsskilyrði í nautgriparækt sem tók gildi um síðustu áramót. Innlausn greiðslumarks fer fram 1. mars, 1. maí, 1. september og 1. nóvember ár hvert.

Á árinu 2017 er innlausnarvirði greiðslumarks mjólkur 138 krónur fyrir hvern lítra mjólkur. Samkvæmt fyrrnefndum samningi ríkis við bændur skulu framleiðendur sem eru nýliðar eða hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark á árunum 2013-2015 hafa forgang að kaupum 50% þess greiðslumarks sem Matvælastofnun innleysir á innlausnardegi.

Sá pottur skiptist síðan jafnt á milli forgangshópanna í samræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 1150/2016 um stuðning við nautgriparækt. Potturinn skiptist hlutfallslega í samræmi við það magn sem óskað var eftir af framleiðendum í fyrrgreindum hópum. Það greiðslumark sem þá er eftir er til úthlutunar öðrum kaupendum greiðslumarks og kaupendum í forgangshópum, að frádregnu því magni sem þeir fengu úthlutað úr forgangspotti.

Á innlausnardeginum 1. september var 143.238 lítrum úthlutað úr forgangspotti 1 (10% umframframleiðslupotti) en engin framleiðandi uppfyllti skilyrði um nýliðunarforgang að þessu sinni. Þá var 429.714  lítrum úthlutað úr almennum potti.