Í kjölfar árslangrar tilraunar með sex klukkustunda vinnudag meðal starfsmanna elliheimilisins Sjöjungfrun í Umea í Svíþjóð er ljóst að tilraunin náði ekki því fram sem að var stefnt. Þetta kemur fram í frétt Business Insider .

Laun miðað við 8 tíma

Líkt og gert var tilraun með í elliheimilinu Svartedalen í Gautaborg sem einnig lauk á þessu ári, þá fengu hjúkrunarfræðingar heimilisins sex klukkustunda starfsdag en fengu laun sem miðuðust við 8 klukkustundir.

Stjórnmálamenn sem stýrðu sveitarfélögunum sem gerðu tilraunina voru með væntingar um að tilraunin myndi bæta heilsu starfsmannanna og þar með bæta upp aukinn kostnað vegna hennar með sparnaði í veikindaleyfum og öðrum heilbrigðiskostnaði starfsmanna til lengri tíma litið.

Veikindadögum fjölgaði

Þvert á væntingar þá jukust hins vegar veikindadagar starfsfólks, þeir fóru úr 8% í 9,3% á tilraunatímabilinu.

Tilraunin í Umea dregur niðurstöður fyrri tilraunar í Gautaborg í efa, að minnsta kosti er ljóst að góður árangur er ekki einhlítur af styttingu vinnutímans.

Fyrri tilraun heppnaðist vel

Tilraunin sem gerð var í Gautaborg fékk heimsathygli í vor því hún var talin hafa heppnast mjög vel, hjúkrunarfræðingarnir lýstu aukinni starfsánægju og voru ólíklegri til að taka veikindadaga sem og þeir voru framleiðnari.

Samanburðarhópur sem notaður var við tilraunina reyndist nánast þrisvar sinnum líklegri til að taka sér frídaga og tvisvar sinnum líklegri til að tilkynna um veikindi. Jafnframt lýstu hjúkrunarfræðingarnir 20% meiri ánægju.