Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita fasteignafélags, segir nauðsynlegt að fyrirhuguð uppbygging í kringum Kringluna verði gerð í eins góðri samvinnu við íbúa, viðskiptavini og verslunareigendur í Kringlunni og kostur er á.

Fyrirtækið sé með víðtækar og viðamiklar hugmyndir um framtíðarþróun á svæðinu sem fela í sér íbúðabyggingu, byggingu skrifstofuturns, hótelturns auk stækkunar verslunarmiðstöðvarinnar sjálfrar.

„Það þarf að áfangaskipta uppbyggingunni vel, enda tekur langan tíma að reisa sextán hæða hótelbyggingu, átta hæða skrifstofuturn og 500 íbúðir og það verður ekki gert allt í einu,“ segir Guðjón um hugmyndir um uppbyggingu á Kringlusvæðinu.

Guðjón segir að upphaflega hafi verið rætt um að hægt yrði að byggja um 350 íbúðir á því svæði þar sem gamla Morgunblaðshúsið stendur og þar í kring.

„Það sem við erum að horfa á núna í skipulagsvinnunni, í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg, er að okkar kannanir sýna að hægt verður að koma fyrir allt að 500 íbúðum á svæðinu frá Sjóvá-húsinu meðfram Kringlumýrarbrautinni og upp að Listabrautinni,“ segir Guðjón.

„Það stefnir allt í það að á þessu ári verði farið í hugmyndasamkeppni fyrir svæðið sem væri þá undanfari deiliskipulags. Draumur okkar hjá Reitum er að henni verði lokið fyrir lok þessa árs, þannig að deiliskipulagsvinna geti hafist við lok árs 2017 sem verði þá kláruð á fyrri hluta ársins 2018.“

Guðjón segir þróunina á Kringlureitnum vera langtímaverkefni og leggur hann áherslu á að raskið af mögulegum framkvæmdum verði sem minnst fyrir íbúa í kring, sem og viðskiptavini og verslunarmenn í Kringlunni.

Byggt við norðurenda Kringlunnar

„Þetta gengur út á að þróa og byggja upp samfélag, en ekki bara að bæta við verslunarmiðstöðina sem slíka,“ segir Guðjón sem þó segir að það standi einnig til.

„Svo hafa verið uppi hugmyndir, sem eru í skipulags- og hugmyndavinnu, að byggja upp hótel við norðurenda Kringlunnar og hugsanlega skrifstofuhúsnæði,“ segir Guðjón sem ítrekar þó að grunnhugmyndir fyrirtækisins eigi eftir að fara í gegnum langt ferli.

„Þetta á eftir að fara í hugmyndasamkeppni, svo í skipulagsvinnu og loks í deiliskipulag, en þessi vinna er á fleygiferð núna.“

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .