Sextíu skattstofnar eru eyrnamerktir tilteknum verkefnum eða stofnunum og er áætlað að tekjur af þeim nemi samtals 110 milljörðum króna á þessu ári. Í mörgum tilfellum er ekki samhengi á milli markaðra tekna og þeirra útgjalda sem tekjurnar eru ætlaðar í. Þetta kemur fram í skýringargögnum sem fylgja svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um málið.

Sé tímabilið 2008-2015 tekið saman voru markaðar tekjur Ofanflóðasjóðs 8,9 milljörðum króna meiri en veittar fjárheimildir sjóðsins. Ástæðan er sú að ekki hefur verið farið jafn hratt í ofanflóðavarnir og upphaflega var ráðgert. Tekjur af flugvallarsköttum voru 1,2 milljörðum króna minni en veittar fjárheimildir til flugmála á tímabilinu.

Hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í almennu tryggingagjaldi og tekjur af ábyrgðargjaldi launa hafa verið mun meiri en þau útgjöld sem þessir mörkuðu tekjustofnar áttu að standa straum af.

Í svari ráðherra kemur fram að á síðustu árum hafi oft komið til tals að draga þyrfti úr mörkun ríkistekna. Það myndi auka gagnsæi og styrkja fjármálastjórn.