Faxaflóahafnir gerðu nýverið í fyrsta sinn þjónustukönnun fyrir útgerðir smábáta í Reykjavík og á Akranesi . Ýmislegt forvitnilegt kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar, en stefnt er að því að gera slíka könnun á fimm ára fresti.

„Útgerð smábáta hefur smátt dregist saman síðustu árin og er það von Faxaflóahafna að með þessari könnun verði hægt að móta stefnu um framtíðarstarfsemi smábáta við Reykjavík og Akranes,“ segir í frétt Faxaflóahafna um könnunina.

Spurningar voru sendar til um það bil 60 smábáteigenda en einungis 21 þeirra tóku þátt. „Af þeim sökum eru niðurstöður háðar annmörkum, þar sem ekki er hægt að yfirfæra þær á heildina vegna dræmrar þátttöku,“ segir í skýrslu Faxaflóahafna um könnunina. Engu að síður segjast Faxaflóahafnir geta nýtt sér þessar upplýsingar til að bæta aðstöðu fyrir smábátaeigendur.

Fram kom að 19 prósent svarenda sögðust stunda veiði allt árið og nærri 60 prósent vinna einir um borð í skipi sínu. Allir sögðust þeir nýta sér löndunarkrana hafnarinnar við löndun og rúmlega 70 prósent selja allan sinn afla í gegnum Fiskmarkaðinn í Reykjavík eða á Akranesi. Rúmlega þrír af hverjum fjórum sögðust geta hugsað sér að selja beint frá báti.

Þá sögðust nærri 40 prósent hafa aðstöðu verbúðunum eða einhvers staðar á hafnarsvæðinu, en rúmlega 60 prósent sögðust enga aðstöðu hafa. Allir sögðust þeir þó hafa áhuga á nýta slíka aðstöðu, ef hún væri til staðar.

Þá voru smábátaeigendur spurðir hvort þeir gætu  hugsað sér að færa viðlegu smábáta úr Suðurbugt í Vesturbugt. Langflestir sögðust vel geta hugsað sér það. Suðurbugt er framan við gömlu verbúðirnar við Geirsgötu þar sem Sjávargreifinn, Café Haití og fleiri veitingastaðir hafa hreiðrað um sig, en Vesturbugt er framan við Sjóminjasafnið.

Yfirgnæfandi meirihluti, 95,2 prósent, sögðust telja nauðsynlegt að bílastæði séu til staðar fyrir smábátaeigendur þar sem þeir geti geymt bíla sína meðan þeir róa. Tveir af hverjum þremur eiga vagn undir bát sinn og nærri 60 prósent geta hugsað sér að samnýta vagn með öðrum smábátaeigendum.

Í frétt frá Faxaflóahöfnum um þjónustukönnunina segir að það sé „áhugavert að sjá hversu lítil nýliðun hefur verið í smábátaútgerð á þessari öld“ og það veki spurningar um hvað sé hægt að gera til að snúa þeirri þróun við.

„Smábátaútgerð setur svip sinn á hafnarlífið,“ segir þar, enda hafi þessi útgerð verið „snar þáttur í íslensku mannlífi í gegnum aldirnar.“

Smábátaeigendur voru því spurðir hvað helst þurfi að gera til að auka smábátaútgerð og hvaða aðstöðu skorti helst fyrir aðkomubáta.

Meðal þess sem þeir nefndu var að bæta þyrfti viðleguaðstöðu, auka viðlegupláss fyrir aðkomubáta og stærri báta, lækka viðlegugjald og verja smábátahöfnina betur. Þá sögðu þeir mikilvægt að vera með læst bílastæði nálægt viðlegu, beituskúra vanti fyrir aðkomubáta sem og klósett og sturtu. Auk þess nefndu þeir að leyfa ætti strandveiði allt árið eða leyfa mönnum að stunda aðra veiði samhliða.