Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) vísa á bug ásökunum Hagsmunasamtaka heimilanna um að aðkoma samtakanna að samstarfi lánveitenda og fulltrúa lántakenda um úrvinnslu gengistryggðra lána hafi brotið gegn skilyrðum Samkeppniseftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu SFF að samtökin hafi fylgt skilyrðum Samkeppniseftirlitsins fyrir samstarfinu að öllu leyti og þar af leiðandi er enginn fótur fyrir þeim ásökunum sem koma fram í kvörtun Hagsmunasamtakanna.

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem heimild var veitt fyrir samstarfinu var tekið fram að SFF væri veitt heimild til að útvega fundarritara og aðstöðu fyrir samstarfið. Aðkoma SFF var í samræmi við þessi skilyrði. Samtökin hafa átt í samskiptum við fjölmiðla og stjórnvöld um málið og er sú aðkoma í samræmi við megintilgang hagsmunasamtaka á borð við SFF. Fulltrúar SFF fóru á fund dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur til að óska eftir flýtimeðferð fyrir dómsmál sem rekin yrðu á grunni samstarfsins. Þessi samskipti eru einnig í samræmi við almennt hlutverk samtakanna.

Í erindi Hagsmunasamtaka heimilanna til Samkeppniseftirlitsins kemur fram sú skoðun að ummæli sem hafa verið látin falla í fjölmiðlum um samstarfið séu til vitnis um SFF hafi brotið í bága við tilmæli Samkeppniseftirlitsins. Þessi ásökun er fjarstæðukennd. Í þeim ummælum er vísað til SFF þegar nákvæmara hefði verið að nefna þau fjármálafyrirtæki sem áttu aðkomu að samstarfinu. Ónákvæmni í orðavali í umfjöllun um samstarfið getur ekki talist brjóta í bága við skilyrði Samkeppniseftirlitið.“