Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) hafa gengið til samstarfs um Fjármálavit sem er verkefni á vegum SFF. Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla sem hefur verið þróað í samvinnu við kennara og kennaranema. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að auknu fjármálalæsi ungs fólks og veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál. Yfir 100 starfsmenn aðildarfélaga SFF heimsækja um 4000 nemendur í 10. bekk á hverju ári  og með innkomu Landssamtaka lífeyrissjóða bætast starfsmenn lífeyrissjóðanna í þann hóp.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri LL segir við tilefnið: 8Við hjá Landssamtökum lífeyrissjóða sjáum mikil tækifæri í samstarfinu við SFF og Fjármálavit. Starfsfólk lífeyrissjóðanna býr yfir mikilli þekkingu á fjármálum einstaklinga og það er okkur tilhlökkunarefni að fá að heimsækja tíundubekkinga og eiga með þeim góðar stundir í verkefnum sem tengjast þessum mikilvæga málaflokki.“

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF bætir við: „Það er okkur mikið fagnaðaefni að fá Landssamtök lífeyrissjóða til liðs við verkefnið Fjármálavit en það mun gefa verkefninu byr undir báða vængi og auka slagkraftinn.“