Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur ákveðið að slíta kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins eftir árangurslausan fund hjá ríkissáttasemjara í dag. Greint er frá þessu á vef SGS .

Samkvæmt frétt SGS samþykkti viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins síðastliðinn föstudag einróma að ef ekki kæmu fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins um helgina, hefði viðræðunefnd sambandsins fulla heimild til þess að slíta kjaraviðræðum. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafi komið fram frá Samtökum atvinnurekenda.

Sökum þess hafi viðræðunefnd SGS slitið kjaraviðræðum og muni í kjölfarið sækja heimild til aðgerða frá félagsmönnum.

Í yfirlýsingu á vef Starfsgreinasambandsins segja þeir engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafa svo komið fram frá Samtökum atvinnurekenda á fundinum í dag. Í framhaldinu mun heimild verða sótt til aðgerða frá félagsmönnum, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stefnir í verkföll frá bæði VR og Eflingu á næstunni.

Á föstudag úrskurðaði Félagsdómur að svokölluð örverkföll og vinnutruflanir sem félagið ætlaði að beita frá 18. mars væru ólöglegar, þar sem þær fólu í sér að starfsmenn myndu leggja niður venjubundna vinnu að einhverju leyti.

„Við erum hvergi af baki dottin og höldum ótrauð áfram með hefðbundin verkföll sem boðuð hafa verið og hefjast næstkomandi föstudag,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar við það tilefni.

Fleiri fréttir um boðaðar verkfallsaðgerðir: