Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. (SH) hefur gengið frá kaupum á 80% hlutafjár í breska matvælafyrirtækinu Seachill Ltd. sem er sérhæft í framleiðslu kældra sjávarafurða. Áætluð velta félagsins á þessu ári er 90 milljónir punda eða um 12 milljarðar króna. Seachill hefur vaxið hratt á síðustu árum og skilað góðri rekstrarafkomu. Kaupverð 80% hlutafjárins nemur 36,8 milljónum punda, eða 4,9 milljörðum króna. Seljendur munu áfram eiga 20% hlut í félaginu en SH er skuldbundið til að kaupa eftirstandandi hluti. Seachill er skuldlaust við kaupin en eigið fé félagsins nemur 8 milljónum punda eða um 1.050 milljónum króna. Landsbankinn fjármagnar kaupin til skemmri tíma. Gengið verður frá langtímafjármögnun síðar á árinu en hún verður í formi lánsfjár og nýs hlutafjár.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að með kaupunum styrkir SH verulega stöðu sína á breska markaðnum í framleiðslu kældra sjávarafurða. SH tók fyrsta skrefið inn á þann markað árið 2002 þegar dótturfélag SH, Coldwater Seafood (UK) Ltd. keypti verksmiðju í Redditch sem framleiðir kælda, tilbúna sjávarrétti. Fyrir þau kaup hafði starfsemi Coldwater eingöngu falist í framleiðslu frystra sjávarafurða og þá fyrst og fremst til breskra smásölukeðja. Kaupin á Seachill eru í samræmi við þá stefnu SH að auka hlutdeild félagsins í framleiðslu og sölu kældra sjávarafurða. Tekjur SH af framleiðslu kældra afurða munu liðlega fjórfaldast við kaupin á Seachill og nema ríflega helmingi af heildartekjum SH í Bretlandi. Samanlögð velta Coldwater og Seachill mun nema um 215 milljónum punda eða um 28 milljörðum króna á ári. Saman verða félögin með um 14% hlutdeild í sölu sjávarafurða á breska smásölumarkaðnum.

Sala á kældum sjávarafurðum hefur vaxið hratt í Bretlandi á síðustu árum, en vöxturinn nam um 8,5% á árinu 2003. Sala breskra smásölukeðja á kældum sjávarafurðum nemur nú um helmingi allrar sölu þeirra á sjávarafurðum á móti sölu á frystum og niðurlögðum vörum. Markaðsrannsóknir benda til að vöxtur kælda markaðarins verði áfram mikill, en minni vöxtur verði í sölu frystra afurða.

Seachill Ltd. var stofnað árið 1997 og hefur frá upphafi verið í eigu sömu aðila. Seachill kaupir meginhluta hráefnis síns frá Noregi, Íslandi og Bretlandseyjum, og þá aðallega lax, þorsk og ýsu, auk annarra tegunda sem keyptar eru víðs vegar að úr heiminum.

Vöxtur Seachill hefur verið ör frá upphafi. Á síðustu þremur árum hefur salan árlega aukist um 20% og áætlun þessa árs gerir ráð fyrir að salan nemi um 90 milljónum punda eða um 12 milljörðum króna sem samsvarar um 14% aukningu frá fyrra ári. Verksmiðja Seachill í Grimsby, sem er nýleg, er búin nýjustu framleiðslutækjum og uppfyllir ströngustu gæðakröfur matvælaiðnaðarins. Mikill vöxtur Seachill hefur byggst á nánu samstarfi við Tesco, stærstu smásölukeðju Bretlands, en félagið hefur séð Tesco fyrir fjölbreyttu úrvali sjávarafurða. Starfsmenn Seachill eru um 550 talsins.

Sá hluti núverandi eigenda Seachill sem hefur myndað yfirstjórn félagsins mun áfram gegna sömu störfum hjá félaginu eftir kaupin. Ekki er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á rekstri Seachill í kjölfar kaupanna, en ljóst er að ýmis tækifæri felast í náinni samvinnu Coldwater og Seachill. Saman mynda félögin öfluga einingu sem spannar yfir breitt svið í framleiðslu sjávarafurða.

Í tilkynningu með ársuppgjöri SH kom fram að rekstraráætlun gerði ráð fyrir að hagnaður ársins yrði svipaður eða nokkru meiri en í fyrra er hann nam um 500 milljónum króna. Rekstur Seachill kemur inn í samstæðuuppgjör SH frá kaupdegi. Í ljósi þess hefur afkomuáætlun félagsins verið endurskoðuð, og að teknu tilliti til afskrifta á viðskiptavild og fjármagnskostnaðar vegna kaupanna, er nú gert ráð fyrir að hagnaður eftir skatta nemi um 750 milljónum króna á árinu 2004.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitti SH ráðgjöf vegna kaupanna. Lögfræði- og endurskoðunarráðgjöf veittu lögfræðistofan Andrew M. Jackson og endurskoðunarfyrirtækið Forrester Boyd.