Samtök iðnaðarins fordæma lögbrot aðila í byggingariðnaði og telja að lögbrotin umræddu sem fjallað hefur verið um síðustu daga komi ekki aðeins niður á þeim sem brotin og ósiðlegu hegðunina fremja heldur einnig samkeppnisaðilum þeirra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í dag.

Í tilkynningunni segir að Samtökin fordæmi þau vinnubrögð sem fjallað hefur verið um - en nokkur fyrirtæki hafa verið sökuð um að notast við svarta atvinnustarfsemi. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir að flest fyrirtæki í bransanum virði lög og reglur og séu til fyrirmyndar. Þá sé óþolandi að öll atvinnugreinin sé sett undir sama hatt

„Ef það reynist rétt sem greint hefur verið frá að tiltekin fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hafi brotið af sér fara slík mál sína lögboðnu leið í réttarkerfinu. Virkt eftirlit með starfsháttum fyrirtækja er mikilvægt þeim fyrirtækjum sem vilja standa vel að sinni starfsemi og starfa í heilbrigðu samkeppnisumhverfi," segir Almar.

„Það er því að ósekju og í raun óþolandi að öll atvinnugreinin er sett undir sama hatt. Það er skýrt í okkar huga að ekki er undir neinum kringumstæðum hægt að réttlæta að fyrirtæki komi sér undan skyldum sínum eða standi ekki skil á sínum lögbundnu greiðslum."