Sjómannasamband Íslands leggst gegn lengra strandveiðitímabili og auknum heimildum strandveiðibáta í umsögn sinni um frumvarp Gunnars Guðmundssonar frá Pírötum þess efnis.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins segir í Fréttablaðinu að félagið hafi alfarið lagst gegn breytingum sem þessum.

„Með því að auka aflahlutdeild þessara einyrkja er verið að taka hlutdeild af okkar mönnum sem stunda sjómennsku sem aðalatvinnu,“ segir Valmundur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að strandveiðimenn geti veitt í átta mánuði á ári í stað fjögurra eins og nú er.