Samtök iðnaðarins mótmæla harðlega þeim fyrirætlunum að málefni mannvirkja, sem nú heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið flytjist til nýstofnaðs ráðuneytis félagsmála. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um þingsályktun um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem send hefur verið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Í umsögninni segir meðal annars að byggingariðnaður og mannvirkjagerð sé mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Vægi byggingariðnaðar hafi numið 7,7% af vergri landsframleiðslu árið 2017 og verðmætasköpun greinarinnar numið 197 milljörðum króna. Þar með sé greinin með meira vægi en sjávarútvegur og fjármálastarfsemi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu svo dæmi séu tekin. Um 13 þúsund launþegar störfuðu í byggingariðnaði árið 2017. Að mati samtakanna er fráleitt að þessum mikilvæga málaflokki verði komið fyrir innan ráðuneytis sem burtséð frá húsnæðismálum hefur að öðru leyti enga samleið með málefnum mannvirkja. Málefni félagsmálaráðuneytisins varða m.a. sjúkra- og lífeyristryggingar, félagsþjónustu, málefni barna og málefni fatlaðra. Þá segir að um sé að ræða tengda málaflokka en það gefi augaleið að mannvirkjamálin standa ofangreindum málaflokkum fjarri og regluverkið sé ólíkt. Málefni mannvirkja fari þannig úr því að vera jaðarmálaflokkur í einu ráðuneyti yfir í að vera jaðarmálaflokkur í öðru ráðuneyti.

Þá segir í umsögninni að Samtök iðnaðarins hafi bent á að málefni íbúðamarkaðar, þ.m.t. uppbygging íbúðarhúsnæðis og skipulagsmál, séu munaðarlaus málaflokkur í stjórnarráðinu í ljósi þess að húsnæðismál eru á verksviði velferðarráðuneytisins, skipulagsmál og málefni mannvirkja eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og málefni sveitarfélaga eru á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með núverandi skiptingu sé hvorki yfirsýn yfir málaflokkinn í heild sinni né skilvirkni. Svo verði heldur ekki með fyrirhugaðri breytingu þar sem málefni sem tengjast íbúðarhúsnæði verði enn á forræði þriggja ráðuneyta.

Að mati samtakanna ætti að færa húsnæðismál úr velferðarráðuneyti og bygginga- og skipulagsmál úr umhverfis- og auðlindaráðuneyti yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þannig að úr verði öflugt innviðaráðuneyti þar sem þessi mikilvægi málaflokkur yrði í heild sinni. Fyrir þessu eru skýr fordæmi í Danmörku og Svíþjóð. Þannig ykist skilvirkni og yfirsýn í málaflokknum til muna sem er forsenda þess að uppbygging húsnæðis á Íslandi verði hagkvæmari.