Loðnukvótinn á þessari vertíð hefur verið veiddur upp, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Síðasta skipið til að landa loðnu á þessari vertíð var Hoffell SU – skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Frá því er sagt á heimasíðu fyrirtækisins í dag að skipið sé á heimleið með 900 tonn , sem var síðasti skammturinn af 8.600 tonna kvóta Hoffellsins.

Að sögn Bergs Einarssonar skipstjóra var aflinn veiddur í Hrútafjarðarál, sem eru ekki algeng mið fyrir loðnuveiðar, frekar sjaldgæf reyndar, segir í umfjöllun Loðnuvinnslunnar. Loðnan er falleg, u.þ.b. 65% hrygnur og fer öll til hrognatöku hjá Loðnuvinnslunni.

Aðspurður sagði Bergur að veiðin hefði gengið mjög vel, spegilslétt haf, sól og blíða. Og þegar hann var inntur eftir ástandi á loðnumiðunum svaraði hann því til að það væri „skömm að þessi vertíð væri búin, því nóg væri af loðnu á miðunum enn“.

Nú þegar loðnuvertíðin er yfirstaðin verður farið í að skipta nótinni út fyrir flottroll til kolmunnaveiða.