Gullsmiðurinn Sif Jakobsdóttir hefur undanfarið vakið mikla athygli víðs vegar um Evrópu með fyrirtæki sínu og hönnun. Hún hefur frá upphafi ætlað sér stóra hluti og segir það markmið sitt að Sif Jakobs Jewelry verði eitt af þekktustu vörumerkjum heims.

Sif segir fyrirtækið ganga mjög vel. „Við stækkum um 35-40% á hverju ári sem er rosalega mikið miðað við þá stærð sem við höfum nú þegar náð. En þetta er mjög mikil vinna og okkar stærsta verkefni um þessar mundir er fjármögnun enda kostar það mikið að vaxa svona ört og vera ítrekað að ryðja sér til rúms á nýjum markaðssvæðum. Sér í lagi þegar þegar við erum komin inn í risastórar keðjur á borð við þær sem eru í Þýskalandi og Englandi. Litla ísland og Danmörk eru ekkert við hliðina á þessu risum. Ný fjármálakerfi og IT kosta líka mikinn pening en þar sem við erum að keppa við þá stóru á markaðnum þá þurfum við stanslaust að sanna að við erum eins góð og þeir.“

Mikilvægt að hafa persónubak við fyrirtækið

Hagið þið markaðssetningu ykkar mismunandi eftir svæðum?

„Já og nei. Við notum mjög mikið af því markaðsefni það sem við höfum notast við í Danmörku og gengið vel með. Við byrjum alltaf á því að auglýsa okkur og fá viðtöl í svokölluðum fagtímaritum því þar eru kúnnarnir okkar. Svo mætum við á sýningar víðs vegar um heiminn auk þess sem við höfum verið að auglýsa í blöðum á borð við Hello og Marie Claire o.fl.

Munurinn á milli Sif Jakobs Jewelry og mörgum af okkar keppinautum er að það er raunveruleg persóna á bak við fyrirtækið, þ.e.a.s. ég. Þetta vekur athygli og við fáum mörg viðtöl út á það á meðan samkeppnisaðilar okkar eiga erfiðar um vik. Hér er um að ræða alls konar viðtöl og blaðagreinar t.d. um heimilið mitt og tísku en allt gerir þetta mér kleift að koma mér og fyrirtækinu á framfæri á margvíslegan hátt.“

Getur þú lýst fyrir mér framleiðsluferlinu?Sérð þú ennþá um alla hönnun áskartgripum Sif Jakobs Jewelry?

„Við getum orðið það þannig að ég legg línurnar en svo er ég með teymi sem teiknar fyrir mig hönnunina og förum svo saman yfir afraksturinn. Ég er hins vegar með puttana í öllu ferlinu. Fyrst legg ég línurnar og við skissum tillögur. Við ræðum tískustrauma og hvert við viljum stefna með hönnun okkar. Loks tekur teymið mitt við og gerir uppkast að hönnuninni í tölvu. Öll okkar hönnun er gerð í tölvu en það hjálpar verksmiðjum okkar mikið við framleiðsluna og einfaldar allt ferlið. Þegar gripurinn kemur síðan loksins úr framleiðslu þá skoða ég hann og samþykki, nema mér finnist þurfa að breyta einhverjum smáatriðum.“

Vill vinna með gull og demanta í framtíðinni

Hvar fer framleiðsla ykkar fram?

„Framleiðslan fer öll fram í Kína og Ítalíu. Ég hef verið að vinna mikið frá þessum löndum og þekki vel inn á þau og ég er ennþá að vinna með sömu verksmiðjunum og ég samdi upprunalega við fyrir um átta árum.“

Hvernig hráefni notar þú við framleiðsluna? „Við stofnuðum fyrirtækið í miðri efnahagslegri niðursveiflu sem er að hluta til ástæðan fyrir því að ég ákvað að notast mikið við silfur í minni hönnun enda þar um að ræða hráefni sem fólk hafði frekar efni á. Í dag notast ég aðallega við 925 sterlingssilfur og zirkon steina sem eru úr flottum gæðum og skína þar af leiðandi mjög fallega. Auk þess höfum við verið að notast við rósagulls-húðun með fallegri áferð.“

Undanfarnar verðhækkanir á gulli hafa þá væntanlega ekki haft mikil áhrif á þig?

„Nei, það hefur ekki haft áhrif á mig. Það hefur hins vegar lengi verið draumur hjá mér að hanna vörulínu úr gulli og demöntum en það yrði alveg sérstakt verkefni sem yrði að öllum líkindum markaðssett gagnvart öðrum en núverandi markhóp okkar og yrði „exclusive“ enda er markmið okkar að jafnaði að framleiða vöru sem flestir hafa efni á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir hlekknum Tölublöð.