Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur ákveðið að víkja aðstoðarmanni sínum, Sif Konráðsdóttur frá störfum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun taldi Sif ráðherra ekki vanhæfan til að fjalla um hvort jörð í eigu hennar og manns hennar ætti að fá friðlýsingu.

Höfðu þau hjónin barist gegn lagningu Blöndulínu til Akureyrar í gegnum jörð þeirra Hóla í Öxnadal, og vísaði Umhverfisstofnun staðfestingu á friðuninni til ráðuneytisins.

„Ég hef tekið þá ákvörðun að Sif Konráðsdóttir, aðstoðarmaður minn, hætti störfum frá og með deginum í dag,“ segir Guðmundur í stuttri yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla. „Ég óska Sif alls hins besta og þakka henni fyrir samstarfið.“

Á laugardag bárust fréttir um að Sif hefði verið kærð til Lögmannafélagsins árið 2008 fyrir að greiða ekki barnungum brotaþola kynferðisofbeldis bætur sem honum höfðu verið dæmdar í hæstarétti. Tók það brotaþolann hálft ár að fá peningana afhenta eftir að viðkomandi varð 18 ára gamall, en Sif hafði verið réttargæslumaður viðkomandi að því er Vísir greinir frá.