Þrátt fyrir að sala bóka dreifist æ meir yfir allt árið þá er það enn svo að íslenska jólabókaflóðið er haldreipi flestra útgáfufyrirtækja. Starfsmenn fyrirtækjanna segja íslensk stjórnvöld skapa útgáfunum ómögulegt rekstrarumhverfi og að sífellt þrengi að íslenskri bókaútgáfu.

Samkeppni um tíma við snjalltæki

Þrátt fyrir nokkuð jákvæðar afkomutölur segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, sífellt þrengja að íslenskri bókaútgáfu.

„Það má segja að það séu jákvæð og neikvæð teikn á lofti hvað varðar íslenskan bókamarkað. Ef við byrjum á jákvæðum teikningum þá er aukinn kaupmáttur í samfélaginu og við finnum fyrir því með jákvæðum hætti núna í upphafi jólavertíðar.

Jólavertíðin er að fara af stað með miklum ágætum og útlit fyrir um vöxt milli ára. Það er okkur gríðarlega dýrmætt sem í þessu stöndum því jólamarkaðurinn hefur lengi verið grundvöllur fyrir blómlegri útgáfu allan ársins hring hjá flestum útgefendum.

Neikvæðu teiknin eru þau að það þrengir í sífellu að bókaútgáfunni, og það er kannski ekki séríslenskt ástand heldur eitthvað sem við búum öll við í nútíma tæknisamfélagi þar sem framboð af afþreyingu og ekki síst ókeypis afþreyingu hefur verið að aukast verulega með tilkomu snjalltækja sem við vel flest erum með innan seilingar allan sólahringinn.

Við erum í sífelldri samkeppni við aðra afþreyingu um tíma fólks. Þegar svo er þá er mjög mikilvægt að það sem kalla má rekstrarumhverfi útgáfunnar sé okkur hliðhollt.

Einokun í boði íslenska ríkisins

Við sjáum það víða í nágrannalöndunum að stjórnvöld leggja mikinn metnað upp úr því að búa útgáfunni eins gott rekstrarumhverfi og hugsast getur því allir eru sammála um mikilvægi bókaútgáfu fyrir menningu og ekki síst tungu.

Okkur finnst hér heima ekki hafa verið hugað nægilega að þessu sem að mörgu leyti er illskiljanlegt enda málsvæðið svo lítið og viðkvæmt. Þetta sjáum við í hækkuðum virðisaukaskatti á bækur á Íslandi en hann er næstum því tvöfalt það sem meðal virðisaukaskatturinn er á bókum í Evrópu.

Önnur birtingarmynd á þessu rekstrarumhverfi sem ríkið býður íslenskri bókaútgáfu upp á er einokun á útgáfu á kennslubókum fyrir grunn- og gagnfræðiskóla og erum við þar eina Evrópulandið sem hefur þann háttinn á að meina almennum bókamarkaði aðgang að kennslubókaútgáfu fyrir utan Makedóníu sem telst varla til þess lands sem við berum okkur mikið saman við þegar kemur að menntun og læsi,“ segir Egill Örn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .