Vinna við hlutafjáraukningu Konunglega kvikmyndafélagsins gengur ágætlega, að sögn Sigmars Vilhjálmssonar, stofnanda félagsins. Félagið rekur sjónvarpsstöðvarnar Miklagarð og Bravó. Engar breytingar hafa verið gerðar á dagskrám stöðvanna að undanskildu því að laugardagsþátturinn Góður dagur er farinn í sumarfrí. Þáttastjórnendurnir eru sömuleiðis hættir. „Við munum ekki framleiða meira fyrr en í haust,“ segir Sigmar.

Frá því var greint rétt fyrir síðustu mánaðamót að öllu starfsfólki Konunglega kvikmyndafélagsins hafi verið sagt upp störfum og væri aukins hlutafjár leitað. Þetta voru 11 fastráðnir starfsmenn, þar á meðal fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins, sem og verktakar. Þegar þetta var höfðu sjónvarpsstöðvarnar verið í loftinu í um einn mánuð. Vonir standa til að með öflun nýs hlutafjár verði hægt að ráða þá alla aftur. Sigmar sagði í samtali við VB.is ástæðu þessa þá að undirbúningurinn að stofnun sjónvarpsstöðvanna hafi verið of kostnaðarsamur og sé það ástæða þess að aukins hlutafjár sé leitað.